Mótorhjólaspjall

GotoAukabúnaður  Viðhald   Fatnaður   Ferðalög   Hjólaleiðir  Home

Allt frá því að ég fór að hafa vit á farartækjum hafa mótorhjól heillað mig. Bíladella blandaðist með, en alltaf hefur sá fararmáti sem hjólin bjóða uppá verið í uppáhaldi hjá mér. Ég gat varla beðið eftir að fá skellinöðrupróf, - sem nú heitir létt bifhjól, þá hafði ég gaman af öllu sem tengdist mótorhjólum og lærði mikið af því bæði í akstri og viðhaldi hjólanna. Ég átti fyrstu Honduna sem kom til landsins, SS50 og síðan með tímanum eignaðist ég mörg stærri hjól. Svo koma tímabil í lífinu þegar ekki er möguleiki að iðka sportið en síðan tekur sig upp gamla dellan með mikum krafti. Ef ég hjóla ekki núna a.m.k. 10 þúsund Km. á ári þá finnst mér ég varla hafa sest á bak. Fyrir þá sem hjóla sjaldan er frábært að skella sér á þjálfunarnámskeið af og til, nokkur svoleiðis námskeið hafa verið haldin.
Sumir segja að ef maður hjakkar í sama farinu í 10 ár, þá fái maður bara eins árs æfingu 10 sinnum, en maður græði allaf eitthvað á upprifjun og þá taki maður framförum. Góður punktur !

Fjölgun mótorhjóla

Síðustu árin hefur mótorhjólum fjölgað gífurlega hérlendis og klúbbar og félög hafa sprottið upp alls staðar á landinu. Sportið er orðið útbreitt og fjölbeytilegt, enda yfir 5000 skráð þung bifhjól á landinu. Síðustu ár hefur mér fundist vanta góða miðlun upplýsinga um margt sem viðkemur mótorhjólamenningunni. Margir hafa tekið mótorhjólapróf en virðast hafa fengið afar misjafna kennslu og oft litla æfingu.

Upplýsingamiðlun

Mér datt í hug að safna saman fróðleik sem komið gæti að notum fyrir þá sem vilja afla sér viðbótarþekkingar. Ég viðurkenni að mitt viðhorf til mótorhjóla miðast við þann stæl sem ég hef mótað mér, hippa-touring-stæl, en sumt er þó sameiginlegt með öllum tegundum sportsins og nýtist kannski einhverjum sem bara vilja hjóla á drullumöllurum eða racerum. Það krefst miklu meiri æfingar að aka á tveimur hjólum heldur en þremur eða fjórum, allt önnur lögmál gilda um þannig farartæki og ferðamátinn ólíkur. Þegar við förum út að hjóla með vindinn í andlitið þá erum við oftast að njóta ferðarinnar miklu frekar en að sinna erindum eða að komast milli staða. Þetta er sport sem ástæða er til að njóta sem best - án óþarfa óhappa.

Til hvers að lesa fróðleik ?

Fyrir tveimur árum tók ég saman "Mótorráð” ráð fyrir mótorhjólakappa sem var á vefsíðu Sniglanna (forvarnir). Áður hafði ég gert sjálfstæða könnun á orsökum óhappa á mótorhjólum hérlendis og ráðgjöfin var miðuð við það sem virtist oftast koma mótorhjólaköppum í klandur. Það er ekkert töff að detta á mótorhjóli og það er hægt að læra ýmislegt af mistökum þeirra sem hafa lent í klessu. Ég hef þurft að læra af eigin reynslu og mistökum, það er bara miklu meira töff að nota reynslu annarra og sleppa sjálfur við klúðrið. Svo er líka meira gaman að hjóla þegar maður hefur meira öryggi og veit hvað þarf að varast. Ekkert kemur í staðin fyrir æfingu, en góð undirstaða og þekking getur flýtt ótrúlega fyrir færninni. Svo virðist sem orðatiltækið "fall er farar heill" eigi ekki við um mótorhjól því þeir sem lenda í óhöppum eru ragari og það tekur oft langan tíma að sigrast á hræðslunni.

Val á mótorhjóli (þungu bifhjóli)

Hvernig mótorhjól hentar þér? Stórt spurt og ekki einfalt svar. Allir sem ég hef ráðfært mig við eru sammála um það að byrjendahjól þurfi að vera létt og auðvelt. Sumir hafa byrjað á þungum hjólum og lent í basli.
Best er að fá fyrstu reynslu á léttu bifhjóli og flestir kennarar eru með frekar létt hjól.
Þumalreglan er sú að byrjenda hjólið eigi ekki að vera þyngra en tvöföld þyngd ökumannsins.
Þegar örygginu er náð kemur að því að velja "draumahjólið" og þá vandast málið.
Allt eftir aldri og "stæl" þá þarf hjólið að uppfylla þínar kröfur.
Ég hef ekki kynnst neinum sem hefur fundið strax rétta hjólið. Ég þurfti að eiga 1800cc hjól í meira en heilt ár til að komast að raun um að það hentaði mér ekki þó ég sé frekar stór. Sumir vilja dunda við krómið og fara stuttar ferðir í bænum, aðrir vilja ferðast og enn aðrir keppa á drullumöllurum. Götuhjólin hafa margt sameiginlegt og þann flokk hjóla miðast þessi pistill við.
Fyrsta valið er milli þess að "liggja" eða sitja uppréttur á hjólinu.
Racer-hjól bjóða ekki uppá mikil þægindi en hippar og "sófasett" henta betur í ferðalög. Töskur á hjólinu eru miklu þægilegri en bakpokar, það er eins og maður þurfi alltaf að hafa eitthvað dót með sér.
Þegar þú ert búin(n) að finna þinn "stæl" þá er valið miklu einfaldara. Allur klæðnaður miðast líka við þinn "stæl" og góð föt eru dýr.

Aðeins eitt að lokum, STÆRRA er ekki alltaf betra, krafturinn fylgir ekki stærð nema að litlu leyti og útlit og verð getur ráðið meiru um valið. Mikið úrval er af lítið notuðum hjólum og auðvelt að selja vel meðfarin hjól.

Aukabúnaður

Töskur

Það fyrsta sem kemur í hugann við val á aukabúnaði götuhjóla eru töskur. Sum ferðahjól (touring) hafa harðar töskur en á flesta hippa er hægt að festa leðurtöskur. Bakpokar eru ekki góð lausn fyrir farangur, þó það sé kannski eini möguleikinn á racer hjólum.

Vindhlíf

Næst kemur vindhlíf. Vindhlíf þarf að vera nægilega há til að skýla vel fyrir vindi og rigningu en þó ekki hærri en svo að hægt sé að horfa yfir hana.

Aukaljós

Aukaljós eru góð til að sjást betur. Hægt er að tengja stefnuljós þannig að þau loga stöðugt þegar þau eru ekki í notkun, þannig eru flest USA-hjól útbúin. Auka akstursljós (2) undir aðalljósum eru mjög góð og einnig auka bremsuljós.

Veltigrind

Veltigrind (vélarhlíf) eða krómbogar eru þarfaþing. Ef hjólið veltur á hliðina þá hlífir grindin bæði hjóli og fótum.

Sæti

Upprunaleg sæti eru oft ekki nægilega góð og mikið úrval fæst af þægilegum sætum bæði fyrir ökumann og farþega.

Sissy bar

Bögglaberi sem um leið er bak fyrir farþegann, er gagnlegur til að geta smellt lausri tösku á hjólið og til mikilla þæginda.

Viðhald og varahlutir

Best er að gera fyrirbyggjandi viðhald á mótorhjólum. Könnun hefur leitt í ljós að þrjár tegundir bilana eru algengastar úti á vegum, það eru rafgeymar, drifkeðjur/ reimar og aðalljósaperur. Bilun á rafgeymi og keðjum má oftast koma í veg fyrir með fyrirbyggjandi viðhaldi og perur getur maður haft með sér og skipt um á staðnum.

Rafgeymar

Með einfaldri skoðun má oft sjá þegar rafgeymar fara að gefa sig. Ef ljósin dofna óeðlilega þegar startað er, þá er það merki um lélegan geymi. Geymar endast gjarnan í 5 ár.

Drifkeðjur

Oft má sjá ef keðjan slaknar óeðlilega og þá er gott að eiga auka keðju eða skipta um hana áður en hún bilar. Reimar: Slit sést auðveldlega á reimum en þær slitna oftast þegar steinn kemst undir reimina við drifhjólið á ferð. Gott að eiga aukareim til vara.

Dekk

Lítið slitin dekk springa sjaldan og hafa gott grip í bleytu. Ef dekk springur, þá er hægt að nota froðubrúsa sem passar á loftstút dekkja og getur dælt í dekkið lofti og froðu sem lokar litlum götum. Heldur subbulegt að skipta um dekk sem búið er að dæla froðu í, en það getur reddað ferðinni og maður kemst heim á hjólinu. Sumir mæla ekki með því að gera við sprungin dekk á mótorhjólum heldur skipta um dekk. Dekk harðna með árunum, sérstaklega ef þau eru mikið í sól og hita. Fylgjast þarf vel með dekkjum sem eru orðin eldri en 5 ára og þá koma oft sprungur í hliðarnar. (ártalið er stimplað í dekkin)

Varahlutir

Fyrir utan það sem talið er upp hér að ofan, þá er eitt til viðbótar sem getur bundið enda á góða ferð utanbæjar. Kúplingsbarki og handfang eru nauðsynleg til að geta keyrt hjólið. Barkinn getur slitnað fyrirvaralaust og handfangið getur brotnað ef hjólið dettur á vinstri hliðina. Þetta eru ódýrir varahlutir sem er ómetanlegt að eiga og hafa með sér í lengri ferðir. Af eigin reynslu er að auki tvennt sem kemur sér vel að hafa meðferðis. Sterkt einangrunarband og nokkrar kapla-plastklemmur geta reddað ótrúlega miklu.

Fatnaður og veður

Sagt er að skinnið sé stærsta líffærið og það tekur langan tíma að græða skinn á hörund sem hefur skafist á malbiki. Góð hlífðarföt með vörnum eru nauðsynleg og vanda þarf valið vel.

Hlífðarföt

Valið stendur á milli hlífðarfata úr leðri eða gerviefnum. Hvort um sig hefur sína kosti og sumir velja föt eftir útliti og verði. Ekki er gott að gefa ráð um val á hlífðarfatnaði en oftast fylgjast að verð og gæði. Ódýr fatnaður er líklegri til að gefa sig á saumum þegar á reynir og engin afsökun er að vera ekki í góðum hlífðarfötum í okkar kalda loftslagi. Mikið öryggi er að vera í hlífðarfötum í áberandi lit og með endurskini, - ekki allt svart í felulit.

Hjálmar

Hjálmar eru mismunandi, algengastir eru lokaðir hjálmar með opnanlegum kjálka. Hjálmurinn verður að passa vel og vera þægilegur. Hlífðargler er nauðsynlegt til að skýla fyrir vindi, rigningu og flugum. Ég kenni í brjósti um þá sem eru á 90Km hraða með opna kollhjálma, sérstaklega ef veðrið er ekki gott. Sama má segja um verð og gæði á hjálmum, það fylgist oftast að.

Skór

Leðurskór eru vinsælastir, svolítið stirðir til að byrja með, en endast vel og eru flestir vatnsheldir. Gore-tex og önnur gerviefni eru léttari og liprari en verða síður alveg vatnsheld með tímanum. Skór með vörn við tá og ökkla eru fáanlegir bæði í leðri og gerviefnum. Mótorhjólaskór þurfa að vera nokkuð háir og venjulegir skór duga engan veginn.

Hanskar

Eins og með skó, þá fást hanskar bæði úr leðri og gerviefnum. Vandi er að velja hanska og varla hægt að hafa eina sem henta allt árið. Hanskar verða að vera liprir og bæði vatns og vindheldir. Hægt er að nota þunna hanska innanundir í köldu veðri, það munar öllu.( t.d. silki ). Þegar kalt er munar miklu að hanskarnir séu uppháir og nái yfir ermarnar.

Nærföt

Nærföt þarf að velja af kostgæfni til að manni líði vel. Ekkert gerviefni kemur í staðinn fyrir silki og ull. Þetta er staðreynd sem vert er að hafa í huga. Silki og þunn ull eru efni sem eru hlý, þægileg og hleypa raka auðveldlega frá bæði í hita og kulda. Silkihanskar og sokkar eru svo þunnir að hægt er að vera í þeim innanundir hverju sem er. Suma klæjar undan venjulegri ull, en hægt er að fá margar tegundir af fíngerðri (soðinni) ull sem hentar mjög vel. Reynslan hefur kennt mótorhjólaköppum að bómull og gerviefni eru gagnslaus í nærfatnaði fyrir okkar verðráttu -og eins í miklum hita.

Cool stuff

Kaldir og blautir njótum við ekki ferðarinnar á hjóli. Reynslan sýnir að besta ráðið til að forðast hand- og fótkulda er að láta sér aldrei verða kalt undir jakkanum. Viðbrögð líkamans við kólnun er að minnka blóðflæði til útlimanna strax til að halda innri hita. Til að forðast bleytu þarf að vera í góðum hlífðarfötum eða regngalla. Hægt er að bjargast við þunna plastpoka utan yfir hanska og skó stutta leið, en það dugir skammt. Fyrst er að passa að vindur nái hvegi að næða á milli laga, hanskar þurfa að vera uppháir og jakki og buxur þurfa að falla þétt saman eða vera renndir. Góður hálsklútur (buff) þarf að þétta alveg bilið milli hjálms og jakka og buxur þurfa að vera þéttar við skóna. Betra er að vera í tvennum þunnum undirfötum en einum þykkum. Flestir jakkar og buxur eru með lausu fóðri, renndu eða smelltu. Ef ullarnærföt duga ekki þar innanundir, má bæta við lopapeysu eða flíspeysu. Stundum hef ég notað hitaplástur undir sokkana þegar ekkert annað dugar, og svo er hægt að fá rafmagnshitaðan fatnað, en það er flóknari búnaður. Stundum stafar handkuldi af því að við höldum of fast um stýrið, við góðar aðstæður er best að láta hendurnar liggja létt á stýrinu til að halda eðlilegu blóðflæði.

Ferðalög hér og erlendis

Góður undirbúningur marg borgar sig fyrir lengri ferðalög. Fáir fara í tjaldferð á hjóli, þó hef ég hitt nokkra útlendinga hér síðustu árin sem hafa komið með Norrænu og búið í tjaldi. Einnig hef ég hitt nokkra erlendis sem draga á eftir sér tjaldvagn, en það eru algjörar undantekningar. Ég hata stór hótel eins og pestina, helst vil ég gista í sveitagistingu eða á móteli þar sem ég get verið öruggur með hjólið- helst fyrir utan gluggann. Ég geri ráð fyrir að létt aukaföt séu meðferðis, gallinn hentar illa þegar við erum inni eða ekki að hjóla. Aðalatriðin fyrst:
Töskur:
Góðar töskur eru nauðsynlegar, bestar eru (harðar) töskur sem auðvelt er að losa af hjólinu.
Talstöðvar:
Sérstaklega ef fleiri eru saman þá er gott og skemmtilegt að geta talast við. Ég valdi Bluetooth Cardo þegar það kom á markað. Það tæki er lítið og er smellt utan á hjálminn, - engar leiðslur eða batterí. Hægt er að tala saman, svara í GSM símann, hlusta á GPS og innbyggt útvarp. Hver hleðsla endist 5-6 klst.

Eftirfarandi listi er ekki tæmandi og miðast við fengna gistingu

1. Vesk i= kreditkort, peningar, ökuskírteini ( Utanlands: passi, sjúkratrygging* )
2. Snyrtiveski = tannkrem+busti, verkjatöflur, sólarvörn, after-bite
3. GSM sími (& hleðslutæki)
4. Sólgleraugu
5. GPS og/ eða vegakort
6. Hnífur
7. Myndavél (& hleðslutæki)
8. Plastflaska
9. Auka(nær)föt

( * ) Hægt er að fá ókeypis Evrópskt sjúkratryggingarkort hjá Tryggingastofnun.

Fyrir hjólið: Það nauðsynlegasta til að geta bjargað sér

1. Verkfæri (visegrip/ krafttöng til viðbótar við það sem fylgir almennt hjólum)
2. Yfirbreiðsla
3. Keðja (fyrir keðjuhjól)
4. Vasaljós
5. Pera í aðalljós
6. Kaplaklemmur stórar og litlar
7. Sterkt einangrunarlímband
8. Plastpokar
9. Froðubrúsi og 12v dekkjapumpa
10.Kúplingshandfang og barki

* Erlendis er gerð krafa um sjúkrakassa, það má leysa með lítilli tösku með því nauðsynlegasta.
- Þríhyrningsmerki er fyrirferðarmikið, hægt er að fá lítil vegblys sem þjóna sama tilgangi.

Mótorhjólaleiðir

Fyrir utan hringveginn, sem 2009 var (nær)allur orðinn með bundnu slitlagi, þá þekki ég bara nokkrar skemmtilegar leiðir í nágrenni höfuðborgarinnar. Tel ekki með vinsælustu leiðina niður á Ingólfstorg !

1. Flóttamannaleið - Heiðmörk. Elliðavatnsvegur liggur frá Rjúpnahæð til Hafnafjarðar framhjá Vífilsstöðum. Aukaleið er inn í Heiðmörk eins langt og malbikið nær. 2009 var lagt nýtt slitlag á alla leiðina nema smá part við Hafnarfjörð. Skemmtileg leið, margar góðar beygjur en frekar mjór vegur á köflum.

2. Álftanes - úr Hafnarfirði um Garðabæ. Þar sem Herjólfsgata og Herjólfsbraut mætast liggur mjór vegur, Garðavegur, sem endar á Álftanesveginum. Garðaholtsvegur er svo styttri leið út á Áftanesveginn. Suðurnesvegur liggur svo í hríng yst á Álftanesinu. Súfistinn í Hafnarfirði er uppáhalds kaffihúsið.

3. Vatnsleysuströnd - Vogar. Farið er af Reykjanesbraut að Vogum Gott kaffi hjá N1 bensínstöð í Vogum

4. Grindavík - Bláa Lónið. Farið af Reykjanesbraut síðan afleggjarann að Bláa Lóninu og þaðan áfram til Grindavíkur. Í Grindavík er prýðis kaffihús á bryggjunni. Frá Grindavík liggur skemmtilegur vegur framhjá Reykjanesvita í Hafnir. Frá Höfnum liggur vegurinn út á Reykjanesbraut en nýr vegur stutt frá Höfnum beygir til norðurs um Hvalsnes og Sandgerði út á Garðskagavita. Góður veitingastaður er við vitann. Þaðan liggur leiðin um Garðinn og Keflavík út á Reykjanesbraut.

5. Hvalfjörður um Þingvallaleið og Laxárdal (malarvegur). Beygt er út af Þingvallaveginum til norðurs að Meðalfellsvatni og niður í Kjós. Kaffi Kjós er við vatnið. Hvalfjarðarleiðina er óþarfi að telja upp, skemmtileg og fjölbreytt leið gegnum göngin og framhjá Akranesi. Gott kaffihús við Ferstiklu.

6. Selfoss Stokkseyri og Eyrarbakki. Skemmtileg leið er gegnum Selfoss og til hægri veg #33 niður í Gaulverjabæ. Þaðan er svo vegurinn um Stokkseyri, Eyrarbakka og þrengslin.

7. Snæfellsnes. Leiðin um sunnanvert Snæfellsnes að Hellnum er mjög skemmtileg. Ef farið er frá Reykjavík þá er nokkuð löng dagsferð að fara allan hringinn norður fyrir Snæfellsnes framhjá Stykkishólmi.

Fróðleikur

Mest var framleitt af japönskum hjólum ca.1980 síðan hefur framleiðsla á hjólum <125cc minnkað en næstum staðið í stað framleiðsla á hjólum yfir 250cc. Honda er stærsti framleiðandi í Japan.
Mesta sala mótorhjóla í heiminum var árið 2005. Enn er aukning í framleiðslu mótorhjóla utan Japan, mest í Kína. Framleiðsla 2008 (milljónir eintaka): Kína(20M), Indland(7M), Indonesía(4M), Japan(1.7M), Brasilía(1.4M).
Af þeim sem eiga farartæki, þá eiga hlutfallslega fæstir hjól í USA en flestir í Malasíu. Konur eru ca.10% af mótorhjólaeigendum á vesturlöndum.

< Forsíða