M22
Slysakönnun

Óhöpp og slys á bifhjólum.

Könnun á skýrslum síðustu 15 ára gefur gott yfirlit yfir heildarfjölda og eðli slysa og óhappa á bifhjólum hérlendis á þessu tímabili.
Mjög fullkomin tölvugögn hafa verið unnin af Umferðarstofu frá árinu 1998, og hér er að mestu byggt á þeim gögnum við mat á orsökum og afleiðingum bifhjólaóhappa og slysa á því tímabili. Hafa ber í huga þá gífurlegu fjölgun sem orðið hefur á bifhjólum, mest á síðustu 3 árum. ( 2005-2007 )
Frá árinu 2001 til 2005 verður tvöföldun á fjölda hjóla, en í lok ársins 2006 voru skráð rúmlega 4300 þung bifhjól hérlendis.

Þrennt kemur verulega á óvart í niðurstöðum:
Árlegur fjöldi alvarlegra slysa hefur ekki aukist
Hraði er ekki talinn aðalorsök nema í 2.5% tilfella
Meiri hluti atvika verður án þess að bifreið eigi hlut að máli

Þegar á heildina er litið, kemur í ljós að ótrúlega mörg óhöpp verða við útafakstur eða að ökumaður fellur af hjólinu (35%). Líklegt er að jafnvel enn fleiri slík atvik hafi átt sér stað án þess að þau séu á skrá, þá væntanlega án teljandi meiðsla. Nærri 70% tilvika eru talin sök ökumanns hjólsins. Þar vegur útafakstur þyngst.

Atvik flokkuð

Frá árinu 1998 eru skráð 606 atvik sem hér eru flokkuð eftir orsökum og afleiðingum (áverkum) til samanburðar. Í flestum tilvikum verða menn fyrir litlum eða engum áverkum, en að meðaltali hefur eitt dauðaslys orðið á hverju ári síðan 1992. Fimm ár eru án dauðaslysa, en árið 2006 urðu þrjú dauðaslys. Fjögur atvik eru skráð þar sem vegfarandi slasaðist í árekstri við hjól, þar af þrjú þar sem sök er talin vera ökumanns hjólsins. Eitt atvikið olli alvarlegum áverkum.


Eftirfarandi hlutföll eiga við um atvik þar sem einhverjir áverkar eru tilgreindir:

68% útafkeyrslur, eða keyrt á fastan hlut á eða við veg
18% ekið á bifreið sem er kyrrstæð eða hefur numið staðar (t.d.aftanákeyrsla)
8% árekstur við bifreið sem ekið er á eða í veg fyrir hjólið
6% aðrar ástæður eða ókunnar

Eftirfarandi hlutföll eiga við um slys með alvarlegum áverkum:

39% útafkeyrslur, eða keyrt á fastan hlut á eða við veg
20% árekstur við bifreið sem ekið er á eða í veg fyrir hjólið
9% ógætilega skipt um akrein eða ógætilegur framúrakstur (50/50 sök)
7% aftanákeyrslur (oftast sök ökumanns hjólsins)
25% aðrar ástæður eða ókunnar

Ef aðeins eru tekin alvarleg slys þar sem bifreið á hlut að máli, þá breytast hlutföllin eins og hér sést:

34% árekstur við bifreið sem ekið er á eða í veg fyrir hjólið
17% ógætilega skipt um akrein eða ógætilegur framúrakstur (50/50 sök)
12% aftanákeyrslur (oftast sök ökumanns hjólsins)
37% aðrar ástæður eða ókunnar

Hvaða lærdóm má svo draga af þessum niðurstöðum ?
Það sem er jákvætt er í fyrsta lagi það, að alvarlegum slysum hefur ekki fjölgað þrátt fyrir aukinn fjölda hjóla. Líklegasta skýringin er sú að fjölgunin hafi orðið mest í hópi reyndari (og eldri) ökumanna. Í öðru lagi valda bifhjól aðeins örfáum slysum á öðrum vegfarendum.
Það er hins vegar umhugsunarvert fyrir ökumenn bifhjóla, hversu mikið er um útafakstur, akstur á “fasta hluti” og aftanákeyrslur. Það sem hér virðist vera ábótavant, er að akstri sé hagað miðað við aðstæður, en í sumum tilvikum kann ástæðan að vera reynsluleysi ökumanna. Mjög oft er tilgreint “of stutt bil milli ökutækja” og “ógætilega skipt um akrein” sem ástæða fyrir óhappinu. Þetta tvennt talar sínu máli.

MAIDS evrópsk könnun

Í evrópskri könnun MAIDS kemur fram, að sá tími sem ökumenn mótorhjóla höfðu til að bregðast við aðsteðjandi hættu áður en árekstur varð, var oftast innan við 2 sekúndur. Sá tími nægir einfaldlega ekki til að stöðva hjólið. Bent er á það, að í mörgum tilfellum hefði mátt haga akstrinum þannig að forðast mætti árekstur jafnvel án þess að hemla. Þess má geta að könnunin bendir til þess að 20-30 sinnum meiri áhætta fylgi því að ferðast á mótorhjóli en í bíl. Áhættan virðist þó mjög tengd reynslu og aldri ökumanna. Í MAIDS könnuninni eru m.a eftirfarandi niðurstöður tilgreindar:
Flestir ökumenn mótorhjóla sem lenda í slysum eru innan við 25 ára
72% slysa verða í dreifbýli (flest þar sem bifreið á hlut að máli)
70% óhappa verða á innan við 50km hraða
37% óhappa eru talin sök ökumanns hjólsins

Í breskri skýrslu frá 2004 er bent á þrjú atriði sem talið er að hefðu getað afstýrt slysi eða minnkað verulega áverka ökumanna mótorhjóla í allt að helmingi slysa.
1. Betra mat á ökuhraða í beygju
2. Forðast framúrakstur á gatnamótum
3. Haga akstri miðað við aðstæður

Athyglisverð umræða Bæði í Bandaríkjunum og Evrópu um mótorhjólaslys sem verða þegar ökumenn bifreiða aka í veg fyrir hjólin án þess að sjá þau (70%). Þar er bent á hugsanlegar leiðir til að gera hjólin sýnilegri, t.d. með því að aka alltaf með ljós og að klæðnaður sé valinn þannig að hann sjáist betur. Hérlendis er mest umferð mótorhjóla í dagsbirtu og menn eiga alltaf að aka með ljós. Það gæti verið ástæðan fyrir því að ekki verða eins mörg slys hér með þessum hætti. Þarna eru þó vissulega athyglisverðar ábendingar. .