Þórshöfn° Danmörk °Þýskaland Vandel° Svíþjóð Noregur > Kvanndal
Evrópuferð september 2008
Bjarni Stefánson og Stefán Sæmundsson
- Hjólin -
ST1100 Pan European . . . . . . . . . . . . . . . . . . .VT1100 Shadow Sabre
Undirbúningnum fyrir mótorhjólaferðina var lokið, farmiðarnir með Norrænu voru komnir og brottförin ráðgerð þann 17. september.
Ákveðið var að keyra austur á Seyðisfjörð með annað hjólið í kerru en hitt hjólið, sem áður var keypt í Þýskalandi, beið í Vandel í Danmörku.
Tveim dögum fyrir brottför komu boð frá skipafélaginu. Vegna veðurs yrði brottförinni flýtt um einn dag og stoppið í Færeyjum lengt.
Nú voru hendur látnar standa fram úr ermum og tekinn fram listinn yfir allt sem fara átti með.
Plássið í töskunum varð að nýta til hins ítrasta því ekkert mátti vanta og engu ofaukið. Erfiðasta ákvörðunin var hvort taka ætti regngalla með. Að lokum var honum sleppt og því treyst að veðurguðirnir yrðu okkur hliðhollir.Lagt var af stað um kvöldmat þann 15. og komið til Seyðisfjarðar um 5 leytið í birtingu. Tunglskin og blíða fylgdi okkur yfir fjöllin og allt gekk að óskum.
Bíllinn og kerran skilin eftir hjá Austurfari og hjólað inn í skipið þar sem við fengum pláss við hliðina á þýskum hjólum ferðamanna sem hér höfðu farið vítt og breitt um landið.
- Þórshöfn-
Rúman sólarhring tók að sigla til Færeyja, GPS-ið sýndi 33 km/klst siglingahraða.
Fyrir utan dýran mat, kunnum við ágætlega við okkur í Norrænu. Þrifalegir klefar og ódýr fríhafnarbúð.
Við veltum fyrir okkur hvort skipið þyldi illa sjógang, því veðrið var ekki svo slæmt daginn sem dvalið var í Færeyjum, en kannski vildi skipstjórinn bara fá aukadag heima hjá sér - og hann réði ferðinni.
Við skoðuðum okkur um í Þórshöfn, fundum ágæta matsölustaði og verslunarmiðstöð sem heitir Mikligarður. Færeyingar eru prýðis fólk, margir tala íslensku og allir skilja mann á móðurmálinu.
Áfram var siglt til Bergen og þar var rigning. Aðeins einu sinni hef ég komið til Bergen í góðu veðri, svo þetta kom ekki á óvart. Við fengum okkur stuttan göngutúr við höfnina og svo aftur blautir um borð.
Þann 20. september komum við svo til Hanstholm í Danmörku. Prýðis veður, sól og 15 stiga hiti. Við pökkuðum öllu okkar drasli niður, klæddumst brynvörðum hjólaklæðnaði og örkuðum niður á bíladekkið. Þegar röðin kom að okkur, brunuðum við út á hjólinu og suður á bóginn áleiðis til Spjald þar sem við áttum gistingu pantaða á sveitabæ.
Jesper bóndi og hans kona tóku á móti okkur og við settum töskurnar okkar í herbergin sem biðu eftir okkur. Við ákváðum að fara strax að ná í hitt hjólið, sem var í geymslu hjá Bjarna og Bryndísi í Vandel. Best hefði verið að gista þar, en svo óheppilega vildi til að allt var fullt hjá þeim þennan dag. Bjarni hjálpaði okkur að taka hjólið út úr geymslunni, sem er gömul hlaða, og auðvitað rauk Hondan strax í gang.Það var komið myrkur þegar við komum til baka til Spjald, en með aðstoð GPS- tækisins fundum við aftur þennan fallega sveitabæ. Nú var tekið upp nesti og borðaður danskur kvöldmatur, smörrebröð og kaffi.
Við vöknuðum við fuglasöng þegar sólin var að koma upp og eftir morgunmat var öllu pakkað á hjólin og gert klárt fyrir ferðina til Þýskalands. Leiðin lá suður með vesturströndinni framhjá Esbjerg og yfir landamærin við Tönder. Síðan var stefnan tekin á Flensburg og Kiel og svo austan við Hamborg til Laurenburg.
Veðrið gat varla berið betra, hæg vestan átt, glampandi sól og 17 stiga hiti. Eftir rúmlega 300km akstur komum við til Guster þar sem við höfðum pantað gistingu á litlu sveitahóteli sem heitir Egges Gasthof.
< Mynd frá höfninni í Flensburg
Samið var við kokkinn um ekta þýskan kvöldmat, snitsel og bjór. Svo voru öll tæki sett í hleðslu, GPS, tölva, símar og talstöðvar. Man ekki alveg hvernig hægt var að ferðast áður en þessi tæki voru fundin upp, en mig rámar í að það hafi kostað mikla yfirlegu með vegakortum. Talstöðvarnar eru af nýjustu gerð Q2 innbyggðar í hjálminn, Bluetooth til að tala saman, - dregur yfir 1½km, innbyggt útvarp og svo tenging við GPS og síma.
Aðstaðan hjá Egges Gasthof í Guster var frábær, flott herbergi og sérstakt hjólahús bakatil.Mánudagurinn 22. september rann upp heitur og sólfagur í Guster. Morgunmaturinn var hreint frábær, einn með öllu - nema bjór.
Við ákváðum að nota daginn til að hjóla suður með Elbe ánni og aftur til baka, því næsta dag þyrftum við að komast hálfa leið til Svíþjóðar.
Leiðin var sett inn í GPS-tækið, mest eftir sveitavegum með mörgum beygjum og fallegu útsýni. Um hádegið komum við til Dömitz sem er lítill bær við ána Elbe. Stöldruðum við og fengum okkur kaffi og meðlæti.
Við hrósuðum mikið þýska malbikinu, rennislétt og engar hraðahindranir.
Margt mættum við læra af vegagerð þeirra, þar er markmiðið að vegir séu til að komast á milli staða en ekki tefja umferðina að óþörfu !
Á leiðinni til baka lentum við í fyrstu rigningunni, svona rétt til að kæla dekkin. Við stoppuðum á sveitaskrá og létum gallana þorna meðan verið var að útbúa hádegismatinn.en dagsferðin endaði svo hjá kokkinum á Egges Gasthof.< Rennblautir við sveitakrána
Morgunmaturinn ósvikinn að vanda en síðan pakkað niður og gert klárt fyrir ferðina aftur til Danmerkur. Við höfðum pantað gistingu hjá Bjarna í Vandel, og framundan var ca. 330km akstur, mest á hraðbrautum. Smá rigningarsuddi fylgdi okkur til að byrja með, en svo fór að hellirigna.
Áfram var haldið, og sjaldan hef ég verið jafn feginn að komast til Danmerkur, því þar birti upp og sólin fór að skína á okkur.
Þegar við komum til Vandel fengum við að þvo þýska vegaskítinn af hjólunum og setja gallana í þurrk. Stór sveitabær sem þau hjónin breyttu í notalegt gistiheimili fyrir mörgum árum. Margir Íslengingar hafa gist hjá þeim á liðnum árum, en nú eru þar mest þjóðverjar sem eru í vinnu nálægt Billund. Þeir sögðu okkur að pólverjar væru að taka frá þeim vinnu í heima landinu á lágum launum svo þeir yrðu að sækja vinnu til Danmerkur.
Við pældum í því hvaða leið væri best að fara til Svíþjóðar, en ekki virtist vera hægt að fá gistingu í Svíþjóð nema á stórum hótelum, sem við vorum ekkert spenntir fyrir. Möguleiki var að fara yfir beltabrýnnar um Kaupmannahöfn, en okkur fannst það of löng og tilbreytingalaus leið.
Niðurstaðan var að fara til Frederikshavn, sigla með ferju til Gautaborgar og reyna að ná alla leið til Noregs á einum degi.Lögðum af stað frá Vandel í birtingu og tókum hraðbrautina meðfram austur ströndinni til Álaborgar.
Ágætis veður var á leiðinni og þegar við komum svo til Frederikshavn náðum við hádegisferju Stenaline til Gautaborgar.Þetta var um klukkutíma sigling og við fengum okkur ágætis hádegismat um borð. Við pöntuðum gistingu í Aremark í Noregi, sem er rétt norðan við landamæri Svíþjóðar, og vonuðum að við næðum þangað fyrir myrkur. Leiðin lá norður eftir hraðbraut frá Gautaborg áleiðis til Uddevalla.Þegar þangað var komið sáum við að ekki var tími til að fara lengri leið meðfram Vaneren vatninu, svo við héldum áfram á hraðbrautinni til Halden.
Um kvöldið komum við að landamærunum og þar var norska lögreglan með eftirlit og lét okkur blása í áfengismæla. Það kom okkur ekki á óvart að báðir mældust ódrukknir, þannig að við héldum áfram eftir skemmtilegum sveitavegum í leit að Kirkeng. Degi var tekið að halla og við orðnir nokkuð á eftir áætlun, þannig að við hringdum í farsíma sem okkur hafði verið gefinn upp hjá Kirkengcamping, til að láta vita hvenær við mundum koma á staðinn. Eitthvað gekk okkur illa að skilja hvorn annan og svo slitnaði sambandið, enég vonaði nú samt að við fengjum gistingu.
Eftir langan dag fundum við loksins staðinn og hittum þann sem ég hafði talað við í símanum. Þá kom í ljós af hverju mér gekk illa að skilja manninn, því hann var vel við skál og átti í mesta brasi við að telja peninga og finna lykilinn að bústaðnum. Allt gekk það þó að lokum og við vorum mikið fegnir að geta loksins hvílt okkur.
Staðurinn var frábær, bjálkakofi við vatn þar sem mikið var af bátum og hjólhýsum. Við vorum orðnir þreyttir eftir langa keyrslu hátt í 600km, svo við skáluðum fyrir Kirkeng og fórum svo beint í bælið.
Morguninn rann upp í svarta þoku. Þegar sólin fór að bræða þokuna, skoðuðum við okkur um á staðnum. Veðrið gat varla verið betra, blankalogn og blíða. Greinilegt var að fáir voru þarna svona síðsumars, því við mættum bara einum hjónum sem voru í hjólhýsi stutt frá.
Eftir góðan nætursvefn og norskan morgunmat héldum við af stað áleiðis til Drammen fyrir sunnan Osló. Við stoppuðum á leiðinni til að verða okkur úti um norskar krónur, en bankar vildu helst ekki skipta dönskum krónum nemaá mjög lélegum kjörum og endirinn varð sá að við notuðum kreditkort til að ná okkur í skotsilfur.Næst fengum við okkur kaffi í litlu þorpi nærri Hokksund og virtum fyrir okkur bæjarlífið í morgunsólinni. Landslagið varð fallegra og vegirnir meira spennandi eftir því sem norðar dró. Þokuslæða lá meðfram ströndinni, en svo fjölgaði mikið um göngunum gegnum norsku fjöllin, og útsýnið var því frekar takmarkað. GPS tækið tók upp á því að stytta okkur leið eftir fáförnum sveitavegi og þegar við tók malarvegur gegnum skóglendi fram hjá bænum Skotselv, vorum við farnir að missa trúna á þetta ágæta tæki. Útsýnið var að vísu alveg frábært, en við vorum ekki alveg vissir um að við værum á réttri leið.
Falleg leið og sveppir sem litu út eins og hamborgarabrauð . . . .
Við stoppuðum bónda á traktornum hans og spurðum til vegar á okkar bestu norsku. Hann staðfesti að vegurinn lægi til Flesberg, bara svona 20 kílómetrar yfir í næsta dal. Hægt og bítandi héldum við áfram eftir malarveginum, og mikið rétt, loksins komum við á malbik og breiðan veg. Við höfðum ákveðið að fara stutt þennan dag, svo við fórum að leita að vænlegum gististað. Á bensínstöð spurðum við hvort ekki væri einhver gisting í nágrenninu og fundum svo Neset Skydsstasjon sem bauð uppá litla kofa til eigu.Kofarnir voru svo sem enginn lúxus, en alveg nógu gott fyrir eina nótt. Konan sem tók á móti okkur, leiðbeindi okkur við að finna stað til að kaupa mat og nauðsynjar og þangað fórum við. Þar var keyptur grillmatur og alls konar meðlæti, tilbreyting frá fábrotnu nestisfæði. Við vorum einir á svæðinu og nú var kynnt undir grillinu. Grillveislan tókst prýðilega, fyrsta flokks steik með öllu. Um kvöldið fórum við svo að skoða vegakortið.
Við ætluðum að meta veðurspána og taka síðan ákvörðun um það hvaða leið við færum til Kvanndal. Flottasta leiðin liggur yfir Hardanger-heiðina, en strandleiðin er fjölfarnari og lengri. Spáð var þokkalegu veðri fyrri part leiðarimnar en síðan rigningu. Við vorum sammála um að fara yfir heiðina þótt veðurspáin væri ekki sem ákjósanlegust.
Eftir næðissama nótt í sveitakofanum, lögðum við af stað áleiðis til Geilo. Leiðin til Geilo liggur um fjöll og dali, upp og niður endalausa króka. Við komumst fljótt að raun um það, að vegaskilti eru fábrotin. Viðvörunarskilti eru aðeins sett upp þar sem beygjur eru nánast viðsnúningur og flestar brýr eru einbreiðar og ekki merktar sérstaklega. Sem sagt, ekta skemmtiferð á mótorhjóli. Á leiðinni var mikið af skíðasvæðum og sumar bústöðum, eða öllu heldur vertrarbústöðum, en fáir á ferðinni á þessumárstíma. Um hádegið komum við til Geilo. Eftir mikla eftirgrennslan fundum við út að enginn matsölustaður var opinn þar. Okkur var bent á krá sem væri stutt frá, einmitt á okkar leið, og þangað var haldið.
Einfaldur matseðill á Jons-kro, einn réttur og við einir á staðnum. Við spjölluðum við konuna sem sá um staðinn og eldaði fyrir okkur matinn. Hún fræddi okkur um það, að þeirra tími væri á veturna, þá væri allt fullt
af fólki sem stundaði þarna vetraríþróttir. Síðan var lagt á heiðina. Til að byrja með var ágætis veður, en svo komum við upp í þoku sem þéttist stöðugt. Á endanum lúsuðumst við áfram í engu skyggni og rigningarsudda. Þegar fór að halla niður, létti þokunni smám saman og svo endaði heiðin í löngum spíral-göngum niður í fjallið.
Ekki veit ég hvað við fórum marga hringi í krappri beygju, en á endanum komum við út í þröngum dal með þverhníptum fjöllum á báða vegu.Stórbrotið landslag, nánast ekkert undirlendi og mjór vegurinn utan í klettaveggnum. Einhver sagði að kindurnar væru með mislanga fætur hér til að geta staðið í brekkunum, en við sáum engar kindur til að geta séð hvort eitthvað væri til í þessu.
Á leiðinni til Brimnes eru nokkur smáþorp og hafnir sem var gaman að skoða, en þarna var stafalogn og spegilsléttur sjórinn í Eidfjorden. Þýsk fjölskylda spurði okkur til vegar, -héldu að við værum landar þeirra því annað hjólið var á þýskum númerum. Þau fengu leiðbeiningar á þýsku sem virtust duga vel, því við mættum þeim aftur seinna - á réttri leið.
Við Brimnes er svo ferja yfir fjörðinn og þar fórum við í röðina sem beið eftir skipinu. Stutt sigling yfir til Bruravik og síðan göng gegnum fjallið til Granvin.
Mjór vegurinn lá síðan utan í hamraveggnum til Kvanndal, en þar höfðum við löngu áður pantað kofagistingu. Eftir að hafa komið okkur fyrir í einum kofanum, fórum við til baka til Granvin til að gera innkaup, því þarna ætluðum við að dvelja í tvo daga. Við ákváðum að nota restina af deginum til að fara inn í Espelandsdalen, sem var búið að benda okkur á að væri mjög fallegur staður. Veðurspáin var heldur ekki spennandi, svo best var að nota lognið meðan það héldist.
Hrikalegt útsýni og ólýsanleg fegurð sem bar fyrir augu okkar á þessari leið. Myndirnar gefa aðeins litla hugmynd um þetta landslag, og ógleymanleg tilfinning var að horfa á skógi vaxin fjöllin speglast í vatninu.
Kofarnir við Kvanndal voru á fallegum stað í stuttum dal milli hárra fjallaNæsti dagur var nokkurs konar varadagur sem við höfðum planað að eiga ef eitthvað mundi tefja okkur í ferðinni, svo við misstum ekki af Norrænu.
Þennan dag var rok og rigning, ekkert ferðaveður, svo við lágum í leti í Kvanndal bústaðnum, horfðum á sjónvarp og hlustuðum á rigninguna.
Gaman var að sjá fjöllin breytast í röð af fossum í úrhellis rigningu sem stóð yfir mestan hluta dagsins. Um kvöldið leituðum við um allt að veitingastað, en þeir fáu sem fundust
höfðu lokað um síðustu mánaðamót, ferðamannatímanum var greinilega lokið og
Norðmenn á þessum stað lagstir í vetrardvala.
Síðasti dagur ferðarinnar í Noregi rann upp sólfagur, og við lögðum af stað um hádegi til Bergen. Mjór og krókóttur vegurinn lá að mestu utan í bröttum hlíðum og mörg voru göngin gengum fjöllin. Stoppuðum og fengum okkur kaffi í Rakkestad og héldum síðan áfam gegnum fleiri fjöll.
Þegar við komum til Bergen var pöntuð stórsteik á veitingastað við höfnina, dýrasta máltíð sem við höfðum fengið okkur á allri ferðinni. Norðmenn kunna greinilega að verðleggja sinn mat, enda dýrasta land í Evrópu ásamt okkar ástkæra heimalandi. Svo kom á daginn að Norræna hafði tafist í ferðinni frá Danmörku vegna veðurs, að því er okkur var sagt. Við skoðuðum okkur um í bænum á milli rigningarskúra, keyptum svo nesti fyrir heimferðina og létum okkur nægja kvöldmat á MacDonalds. Loksins kom skipið og við brunuðum um borð.Siglingin til Þórshafnar var hefðbundin, snúið við og haldið til Íslands á met tíma til að vinna upp seinkunina. Við komum svo til Seyðisfjarðar um hádegi þann 30. september eftir 14 daga skemmtilega ferð á sjó og landi.
Á Seyðisfirði átti allt að vera klárt til að leysa út hjólið úr tolli. Búið að forskrá hjá Umferðastofu og tollskýrsla klár hjá TVGzimsen,- nema hvað ? Annað kom á daginn. Umferðastofa hafði týnt þýska skráningarskírteininu án þess að láta vita, og sú sem átti að sjá um tollskýrsluna var veik.
Eftir tveggja klukkustunda bið ákváðum við að skilja hjólið eftir hjá Austurfari og keyra heim til Reykjavíkur. Ég hafði samband við yfirmann hjá Umferðastofu og kvartaði yfir meðferðinni og mistökunum við skráninguna. Hann kippti því í lag á örfáum mínútum, baðst afsökunar á þessu og sagði jafnframt að hann ætlaði að taka málið upp með sínum starfsmönnum til að svona lagað mundi ekki endurtaka sig.
Nú var gengi krónunnar rokið upp um 50% og enginn gat vitað hvenær eða hvort það mundi breytast til hins betra. Eftir hálfs mánaðar bið var allt enn í óvissu um gengisskráningu og bankakreppan skollin á.Þegar veðurspáin lofaði góðum tveim dögum og veturinn óðfluga að nálgast, var ekkert annað að gera en greiða gjöldin háu verði og koma hjólinu til Reykjavíkur. 17 október lagði ég af stað til Hornafjarðar í blíðskapar veðri. Mér fannst öruggast að fara fjarðaleiðina um Reyðarfjörð, því einhver snjór hafði fallið deginum áður á fjallvegi.
Firðirnir skörtuðu sínu fegursta þennan haustmorgunn, spegilslettur sjórinn við Reyðarfjörð og svo smá bið eftir fjárrekstri á leið til Djúpavogs og gegnum göngin til Hornafjarðar.
Eftir góða gistingu á Hornafirði var svo haldið til Reykjavíkur, og núna með farþega á aftursætinu. Hnakkaskraut og frábær ferðafélagi gerir nú hverja ferð ánæjulegri, og eftir 9 tíma akstur komst þýski farkosturinn loks í heimahöfn með tvo kalda ferðalanga.
Okkur reiknast til að ferðin hafi verið rúmir 2200 km, plús 700 km til og frá Reykjavík. Ekkert óhapp og engin bilun varð á allri þessari leið.