< Forsíða
Einkaflugið
Frá því að ég byrjaði að fljúga í atvinnuflugi hef ég mikið verið tengdur einkafluginu. Ég átti hlut í Cessna 180 og flaug oft með bróður mínum á Piper flugvél sem hann átti hlut í.
Síðan keypti ég TF-ESS, Cessna 310 sem myndin hér að ofan er af, tekin af Baldri Sveinssyni.Ég var í stjórn Flugmálafélagsins og Flugsögufélagsins mörg ár, en þá var mikil gróska í einkafluginu. Árið 1986 skipulagði ég flugsýningu á Reykjavíkurflugvelli og reyndar aðra sýningu nokkrum árum síðar. Árið 2001 fundust gamlar upptökur af sýningunni frá '86 og ég útbjó DVD sem var sýnd á Hótel Loftleiðum fyrir húsfylli í nóvember það ár. Myndin fyrir neðan eru af málverki sem Sæmundur Stefánsson teiknaði eftir sýninguna .
Myndirnar eru af þyrlu frá skipinu Vædderen sem tók þátt í sýningunni og svo mynd úr veislu sem haldin var fyrir flugmennina á Hótel Loftleiðum um kvöldið. Nemrod frá breska flughernum var stærsta flugvél sem lent hafði á Reykjavíkurflugvelli. Gárungarnir sögðu að malbikið hefði sigið undan hjólunum meðan hún stóð á vellinum.( Fleiri myndir verða settar inn hérna síðar.)
Þetta var stærsta flugsýning sem haldin hefur verið hér, yfir 70 flugvélar sýndu, þar af um 25 herflugvélar. Yfir 40 íslenskir flugmenn tóku þátt í sýningunni og enn fleiri erlendir flugmenn. Á sýningunni voru flugvélar frá öllum íslensku flugrekendunum; Flugleiðum, Arnarflugi, Landhelgisgæzlunni, Flugmálastjórn og Landgræðslunni, en einnig erlendar herflugvélar frá Keflavík, Hollandi, Þýskalandi og Bretlandi. Flugvél bresku konungsfjölskyldunnar og sýningarflugvél frá Dornier voru í gestahlutverki. Rúmlega 15.000 áhorfendur komu á flugvöllinn þennan dag, sem lengi verður í minnum hafður. Ómar Ragnarsson tók viðtal við Þorstein Jónsson flugkappa sem rifjaði upp atburði frá einni fyrstu flugsýningu sem haldin var í Reykjavík árið 1946, en Þorsteinn tók þátt í þeirri sýningu.TF-ESS í Frobisher og í Hrísey
Margar góðar ferðir fór ég á ESS-inu, bæði innanlands og utan. Myndin hér er af okkur Árna Yngvarssyni og Tóta í Frobisher að gera við C402 vél frá Arnarflugi sem hafði bilað þar.
Margar ferðir fór ég til Hríseyjar á ættarsetrið eftir að flugvöllurinn þar var lagfærður.Á Ísafirði og í Meistaravík (Grænl.)
Ég var hjálparliði hjá Almannavörnum Ríkisins ásamt nokkrum radíóamatörum og fór margar ferðir á vegum Almannavarna meðal annars til að setja upp endurvarpa fyrir talstöðvakerfið sem við starfræktum.
Eitt sumar flaug ég segulmælingaflug fyrir Raunvísindastofnun Háskólans. Marteinn Sverrisson og Leó Kristjánsson settu tölvu og mælitæki í flugvélina. Síðan voru gögnin unnin og kortlögð.
Þetta var vandasamt en skemmtilegt verkefni.
< Smellið til að sjá segulkortið
Meðan ég starfaði hjá Íslandsflugi flaug ég oft fyrir þá Kennedybræður frá Akureyri en þeir voru stærstu hluthafar Íslandsflugs og áttu KingAir flugvél TF-ELT. Myndirnar eru úr ferð til Danmerkur og Sæmundur sonur minn flaug með.
TF-ESS var heillagripur sem þjónaði okkur vel í mörg ár. Hún var seld til Bandaríkjanna 1998.