M257h
Hringferðin

Þegar veðurstofan lofaði loksins þriggja daga góðviðri um allt landið, ákvað ég að láta verða af því að hjóla hringinn, -gamall draumur frá liðnum vetri. Sá sem oft hjólar með mér var önnum kafinn og yngsti sonur minn lasinn, svo ekki var um neinn ferðafélaga að ræða, þetta yrði þá einmenningur.Ég pantaði gistingu á Skálafelli nærri Höfn í Hornafirði, til að geta hallað höfði að kvöldi fyrsta dags. Síðan var í bígerð að tala við kunningjafólk á Húsavík, um að skjóta skjólshúsi yfir hjólreiðamanninn á öðrum degi ferðarinnar.Undir hádegi þann 26. ágúst lagði ég af stað með nesti og nýja olíu.
Veðrið var eins og best verður á kosið, logn, léttskýjað og 12 stiga hiti.
Ekki segir af ferðum fram hjá Hveragerði, Selfossi og Hellu, en á Hvolsvelli var keypt bensín og pylsa, en síðan lagt af stað austur um Eyjafjöll til Víkur.Þar var aftur fyllt á tankinn, því bensínstöðvar fyrirfinnast ekki á söndunum.
Mýrdalssandur er langur og tilbreytingarlítill, en ég rifjaði upp í huganum ferðir mínar þar um slóðir fyrir Almannavarnir vegna Kötlugosvarna. Herjólfsstaðir og Hrífunes að ógleymdum Einari á skammadalshóli, tengdust góðum minningum þar um slóðir. Smá rigningarúði á Klaustri og enn bætt á tankinn.
Skeiðarársandurinn með fjallasýn framundan; nú fór ég að taka upp myndavél.

M246 Á brúnni yfir Skeiðará var fallegt að sjá upp á Öræfajökul, en smá ský huldi landsins hæsta hnjúk. Ég kom stuttlega að ferðamiðstöðinni í Skaftafelli, -eins langt og malbikið náði.
Næst var Fagurhólsmýri, enginn viðstaddur þar, en sjálfssali skammtaði mér fyrir þúsundkall og það átti að nægja til Hornafjarðar.Jökulsárlón skartaði sínu fegursta, selir svamlandi innan um jakana forvitnir að sjá alla ferðamennina, sem þarna stóðu dolfallnir í kvöldblíðunni.

M252
Vingjarnlegur útlendingur tók fyrir mig mynd af mér og hjólinu, en við kunnum ekkert sameiginlegt tungumál, svo táknmálið varð að duga. Nú fór að styttast í náttstað, svo ég stansaði við eitt skilti með tré og borði og fekk mér úr nestispokanum. Áfram haldið síðasta spöl dagsins og um sjö leytið kom ég í Skálafell og fekk lítinn bústað til umráða. Fyrst hreinsaði ég pöddurnar af hjálmi og hjóli, en fekk mér síðan göngutúr niður með ánni Kolgrímu.


Gott var að fara í heita sturtu og hlusta á kvöldfréttir í útvarpi hússins, en sjónvarp sást þar ekki.
Svefninn sigraði fljótt, en hávaði í nágrönnum sá fyrir því að mér varð ekki mjög svefnsamt þegar leið á nóttina. Dagur tvö Um fimmleytið fór að birta og ég skreið í mótorhjólabrækurnar. Nestið að heiman var í morgunmat, því morgunverður í boði hússins er ekki fram reiddur svona snemma. Fyrsta sjónin sem við blasti var morgundöggin, sem perlaði af öllu, líka hjólinu. Nú varð að taka fram handklæði og þurrka af sæti, speglum og mælum, því ekki er gott að byrja daginn rassblautur. Til að vekja ekki “tillitssama” nágranna, lét ég hjólið renna góðan spöl niður heimreiðina áður en ég setti í gang. Þegar mótorinn for að hitna lagði ég hanskana varlega utan á strokkana til að fá smá hita í hendurnar sem voru loppnar eftir kalda morgundöggina.
M259Fyrstu kílómetrarnir voru kaldir og blautir enda sólin ekki enn farin að skína nema rétt á hæstu tinda Öræfajökuls. Þögnin var algjör og það var eins og ég væri einn í heiminum. Þegar lengra kom keyrði ég inn í þétta dalalæðu svo ég sá ekki nema nokkra metra fram fyrir mig. Allt í einu var ég kominn inn í gæsahóp sem tók sig á loft undan mér með miklu fjaðrafoki. Þær áttu sér einskis ills von svona snemma dags. Vélarhljóðið styggði hins vegar ekki kindurnar sem sátu sem fastast á veginum, hvernig sem ég flautaði.

M260Hraðamælirinn fór ekki upp fyrir 40 fyrr en ég var kominn yfir Hornafjarðarfljót, en þá blasti við morgunsólin sem tróð sér gegnum skarðið við Laxárdal.Sem ég var að dæla bensíni við mannlausa Hornafjarðarsjoppuna, renndi gamall Landróver inn á planið - í sömu erindargjörðum.
Eldri maður opnaði hurðina með gamalkunnu marri, sem bara fylgir Landróver, - kastaði á mig kveðju og spurði á hvaða ferð ég væri svo snemma dags. Þegar minni sögu lauk, tjáði hann mér að hann væri að fara á hreidýraveiðar, en skotfærasafnið hans hefði nægt hverri meðal herdeild í Afganistan. Við kvöddumst með góðum óskum, og ég stefndi á göngin gegnum fjallið.
M262 Mikið var gott að mæta sólinni þegar ég kom út úr göngunum í Lónsfirðinum, þokuhrollurinn hvarf á svipstundu og blíðan framundan.Það eina sem dró úr dýrð dagsins, var að vegagerðarmenn höfðu verið duglegir að leggja nýtt slitlag á fimm vegakafla. Gróf grús er ill yfirferðar og ef maður er svo óheppinn að mæta bíl sem ekki virðir hraðatakmörkin, þá dynur á manni grjóthríðin. Ég sendi nokkrum kaldar kveðjur, en tók svo það ráð að stoppa í vegkantinum þegar bílar nálguðust, og bera hendi fyrir höfuð. Sumir virtust skilja þetta og hægðu ferðina. Sá vegarkafli sem ég hafði hins vegar haft illar bifur á, voru skriðurnar, en þar var prýðis færð og mínar áhyggjur alveg ástæðulausar. Svona er tilveran skondin !
M263

Ég stoppaði aðeins og rétti úr mér við skilti sem vísar veginn að bæ en á því stendur "Volasel". Ég skoðaði skiltið tvisvar, mér datt í hug að þetta hlyti að vera ritvilla, bærinn hlýtur að heita "Votasel" ellegar "Folasel" - eða hvað ? Kannski heitir bóndinn Voli ?

 

 

 

M264

 

Einn fjörður tók við af öðrum í morgunblíðunni, blánka logn og myndabókaveðurLoksins birtist Djúpivogur, en ég hafði ákveðið að fá mér ekta morgunverð á þeim stað. Hótelið bauð að vísu ekki uppá egg og beikon, en ég og útlendingarnir gerðum okkur að góðu það sem á borðum var.

 

 


M265

Á bensínstöð staðarins fyllti ég á tankinn og spurði heimamenn hvernig færðin væri um Öxina til Egilsstaðar. Einn kvaðst hafa komið þann veg kvöldinu áður og bíllinn sinn væri eitt drullustykki eftir ferðina. Mér nægði þessi lýsing og hugsaði gamla máltækið að betri er krókur en kelda. Sem sagt, ég lagði leiðina til Fáskrúðsfjarðar um göngin til Reyðarfjarðar. Margt hefur breyst með tilkomu álversins og vegirnir hafa svo sannarlega fengið andlitslyftingu þar um slóðir. Nú gat ég notað þriðja gírinn, sem hafði hvílt sig síðan á Hornafirði og við tók breiður vegurinn til Egilsstaða. Stutt stopp í Fellabæ, hitti heimamann á mótorhjóli og við tókum tal saman meðan ég dældi á tankinn fyrir 1275 krónur.
Nú var ég kominn rúmlega hálfa leiðina til Húsavíkur og fekk þau gleðitíðindi með SMS, að þangað væri ég velkominn í gistingu. Aksturinn um austfirðina hafði tekið mig 8 klukkustundir og þreytan farin að gera vart við sig. Ég hafði ekki gert ráð fyrir að þessi leið, tæpir 300 km. gæti tekið meira en svona 5 tíma.
Ég skrifaði þetta allt á vegagerðina, þeim var nær að þurfa endilega að laga slitlag á öllum austfjörðum samtímis Þegar ég kom upp á Jökuldalsheiðina við afleggjarann í Herðurbreiðarlindir og Öskju, ákvað ég að borða afganginn af nestinu og leggja mig smá stund.
M267Ótrúlegt hvað stutt hvíld í stafa logni og glampandi sól, liggjandi á mosabreiðu, hefur góð áhrif á lúin beinin, aðallega rassbeinið.
Möðrudalsöræfin eru ekki ennþá öll með bundnu slitlagi, en að fenginni reynslu af Austfjörðum, taldi ég ekki að það mundi seinka för minni að ráði. Þetta reyndist rétt, því malarvegurinn var þokkalega góður svona þurr. Grímsstaðir á fjöllum eru ekki lengur við aðalveginn og ég sakna þess að sjá ekki þetta eina kennileiti á langri leið um öræfin. M269

Næst staðnæmdist ég stutt við Jökulsá á Fjöllum, úfin og tilkomumikil á.

 

 

 

 

 

 

 

M270

 

Nú fór að grilla í fjöllin við Mývatn, Búrfell og Jörund, og brátt sáust gufustrókarnir við Námafjall. Þarna var margt um manninn og ég stoppaði stutt.
Mývatn bar nafn með rentu þennan dag, ég tók ekki af mér hjálminn við bensínstöðina, en samt náðu nokkrar herskáar mýflugur að troða sér inn að andliti og angra mig. Ég gaf mig á tal við tvo heimamenn og spurði um færðina á Kísilveginum svokallaða, sem er styttsta leiðin til Húsavíkur. Þeir töldu veginn greiðfæran minum farkosti, nokkrar holur hér og þar, en ekki til vandræða. Í ljós kom að meira var af holum en sléttum vegi, og ég setti vegamet í stórsvigi karla á þessari leið. Ég lofaði sjálfum mér því að ef ég kæmist með allt heilt til Húsavíkur, ætti ég inni gott bað og heitan pott í sundlauginni þar. Svo kom betri vegur við Laxamýri, en þar á ég góðar minningar frá laxveiðum með föður mínum í gamla daga.

M181

 

Húsavík. Þar er hvalaskoðun, reðursafn, falleg kirkja og SUNDLAUG. Gleymi ég einhverju ?

 

 

 

 

 


M273Móttökurnar á Húsavík voru á heimsmælikvarða. Eftir sundsprett og heitan pott var grillveisla hjá þeim hjónum. Góðar veigar á borðum úti á svölum í frægu logni staðarins og ekkert til sparað. Mývargurinn hafði litað mig og hjólið gulum drullulit og leifar af stærri skordýrum settu sinn svip á útlitið. Nú varð að taka fram skrúbbinn til að afmá vegsummerkin, því hér hafði átt sér stað fjöldamorð. Með sápu og heitu vatni tókst að ná réttum lit á hjólið, og svo var aðgætt með olíu og dekk fyrir langan akstur morgundagsins. Eftir miklar umræður um heimsmálin, innbyrt með skoskum og frönskum mjöð, var kominn tími til að hvílast. Ég man að ég heyrði ljúfan þrastasöng í garðinum, en svo svaf ég yfir mig.

Dagur þrjú
Veðurstofan spáði rigningu síðdegis í Reyjkjavík, svo ég hafði ætlað að vakna snemma til að blotna sem minnst. Þegar ég svo drattaðist á fætur, kom ekki annað til mála en að ég borðaði staðgóðan morgunverð. Nýtínd aðalbláber með rjóma í forrétt og svo löng röð af kræsingum sem ekki er pláss til að telja upp. Þetta allt tók sinn tíma og klukkan var orðin átta þegar ég komst loksins af stað. Fyrst á dagskrá var bensín hjá Olís.
M276

Aðaldalurinn er í miklu uppáhaldi hjá mér og ég naut þess virkilega að aka hægt gegnum hraunið í morgublíðunni. Í Ljósavatnsskarði stoppaði ég smá stund til að taka mynd og tók síðan stefnuna á Vaðlaheiði.

 

 

 

 

M280Eyjafjörðurinn birtist í allri sinni dýrð, stórt skemmtiferðaskip í höfninni og spegisléttur sjórinn eins langt og augað eygði. Fallegur útsýnisstaður er í hlíðinni gegnt bænum eftir að komið er inn fyrir Svalbarðseyri, þar staldraði ég við og tók myndir í allar áttir. Tveir þjóðverjar voru þarna nærstaddir og ég bað annan þeirra á minni bestu þýsku að smella einni mynd af mér og fáknum. Vielen dank, auf vieder sehen - og svo geystist ég af stað niður að Enn Einum, sem áður hét Esso.

M283

 

Með fullan tankinn var ekki til setunnar boðið, en gaman hefði nú verið að staldra við ögn lengur í 16 stiga hita og brakandi blíðu á Akureyri.

 

 

 

 

 

M287

 

 

Stutt stopp á Öxnadalsheiðinni og svo áfram á nýja veginum í Norðurárdalnum.

 

 

 

 

 

 

M288

 

 

Við vegkantinn vex sums staðar all sérstök tegund af sveppum, ég varð að stoppa til að ná mynd af fyrirbærinu. Mér er sagt að þeir séu baneitraðir.

 

 

 


 

 


Í Varmahlíð fekk ég mér kaffi úti í sólinni og hitti góðan vin minn Hún Snædal. Hann hafði lent flugvélinni sem hann sjálfur smíðaði, á túninu fyrir neðan, og við spjölluðum góða stund um daginn og veginn. Við hittumst oft í gamla daga þegar hann var flugumferðastjóri á Akureyri og ég flaug Fokker hjá Flugfélaginu. Síðan fórum við hvor í sína áttina, hann til Siglufjarðar og ég áleiðis til Blönduóss.

M289

Á Blönduósi er prýðis kaffihús sem ekki er hægt að sniðganga. Jafnvel þótt ég vissi af veðurspánni fyrir sunnan, var einn kaffibolli þess virði að blotna kannski ögn meira. Norðlenska bensínið ætti að nægja yfir í Hrútafjörð, svo nú var slegið í klárinn, - en samt vildi ég að Blöduóslögreglan léti mig í friði.

Ekki leið á löngu þar til þeir mættu mér, en þeir kærðu sig kollótta og ég hélt mína leið.

 

Ég var að virða fyrir mér Gauksmýri þegar mótorinn fór að hiksta. Sennilega hafði hann sopið drjúgt á greiðum akstri. Ég skipti strax á varatankinn, en hann endist ekki nema svona 20km. Næsti bær var Hvammstangi, smávegis úr leið, en samt betra en að verða bensínlaus.

M292Blessaður veri Shell og öll hans fjölskylda. Klárinn minn fekk tuggu á tankinn og áfram var haldið inn Hrútafjörðinn og upp á Holtavörðuheiði.

 

 

 

 

 

 

 

 

Þegar yfir heiðina kom, sá ég í hvað stefndi, svört kólguský á himni í Borgarfirðinum sem boðuðu ekki gott fyrir mótorhjólakappann. Þeir höfðu þá reynst sannspáir á veðurstofunni, bæði með góða veðrið og svo þetta. Við Baulu mættu mér fyrstu droparnir og nú fóru stóru flutningabílarnir að ausa yfir mig skítugum gusum þegar þeir runnu framhjá. Hjálmurinn er nokkuð vel vatnsheldur, en rigningin nær samt inn á milli laga og smýgur inn í skóna sem þó eru úr vatnsheldu Goretex. Í Borgarnesi fór ég með hanskana mína undir handþurrkuna á salerni Olís og lét blása dágóða stund. Ekki þorði ég að gera það sama með skóna, nógu mikið var nú horft á aðgerðina með hanskana. Jæja, aftur út í rigninguna, ekki dugir að drepast þótt maður vökni svolítið. Svona til að bæta gráu ofan á svart, var verið að malbika spottann að göngunum Hvalfjarðarmegin, svo hjáleiðin var um Akranes. Ekki veit ég hvernig drullan kemst upp á veginn við Akranes, en ekki kom hún af himni ofan, svo mikið er víst. Alls staðar í heiminum fá hjól frítt gegnum göng, - nema á Íslandi. Samt var það tvöhundruð kallsins virði til að komast í hlýtt og þurrt Spalarloftið, aðeins mengað af díseltrukkum sem puða upp brekkuna með alla flutninga fyrir landsbyggðina. Aftur tók rigningin við og núna í stærri skömmtum. Ekkert nema Nokia stígvéli hefði dugað til að halda sokkunum þurrum í þessum vatnsflaumi. Jæja, nú birtist blessuð borgin, og brátt var þessi frábæra ferð á enda.

Sagt er að allt sé gott sem endar vel, - ekkert minnst á bleytu eða þreytu. Það skiptir reyndar engu máli, það sem situr eftir í minningunni er ekki blautir sokkar, heldur öll sú ánægja sem fylgir því að hafa notið þess að ferðast um landið okkar í góðu veðri. Hvernig var afur vísan “ég berst á fáki fráum”, skyldi skáldið aldrei hafa prófað hundrað hestafla mótorhjól ?

M279 M290...

Forsíða < Forsíða